The street Frumskógar (which roughly means jungle), from which the guesthouse derives its name, was named by its former habitants, a colony of poets.  Below is the story of the poets and some  examples of their work. At the time being, this chapter is only available in Icelandic.  

Skáldagatan

Á árunum 1940 og þar til um 1965, var Hveragerði þekktast fyrir listamennina sem þar bjuggu, en þar voru skáld og rithöfundar, tónskáld, listmálarar og myndhöggvarar. Allt voru þetta þekktir menn og leiðandi í menningar- og menntamálum þjóðarinnar. Þar má nefna skáldin og rithöfundana Jóhannes úr Kötlum, Kristmann Guðmundsson, Kristján frá Djúpalæk og Gunnar Benediktsson og einnig hinn landskunna hagyrðing sr. Helga Sveinsson, tónskáldið Ingunni Bjarnadóttur og myndlistarmennina Höskuld Bjarnsson, Kristin Pétursson, Ríkarð Jónsson og Gunnlaug Scheving. Í kringum þetta fólk var líf og fjör og þekkt voru garðyrkju- og listamannaböllin þar sem skáldin leiddu saman hesta sína. Skáldin bjuggu flest við götu sem nú heitir Frumskógar en var áður nefnd Skáldagatan.

Miðsel, Frumskógar 10

Jóhannes úr Kötlum kom til Hveragerðis haustið 1940 og bjó fyrsta veturinn í Gufuskála, sumarbústað, nú Bláskógar 15. Hann byggði Miðsel og bjó þar árin 1941-1946. Þá fór hann til ársdvalar í Svíþóð og Gunnlaugur Scheving listmálari keypti Miðsel og bjó þar til ársins 1949 er hann seldi húsið. Jóhannes úr Kötlum kom aftur til Hveragerðis 1947, byggði þá Hnitbjörg, nú Brattahlíð 9, og bjó þar til ársins 1959.

Garðshorn, Frumskógar 9

Kristmann Guðmundsson kom til Hveragerðis í desember 1940. Fyrsta veturinn bjó hann að Melavöllum, nú Breiðamörk 18. Þá byggði hann Garðshorn og bjó þar árin 1941-1960. Garðrækt hans varð landsfræg og ýmsar plöntur flutti hann fyrstur til Íslands. Stutt var á milli þeirra Kristmanns og Jóhannesar og þessar hendingar flugu þar á milli:

Jóhannes kvað:

Lít ég þann er list kann,
löngum hafa þær kysst hann,
Kristmann.

og Kristmann sendi um hæl:

Einkum þó vér ætlum
að þær fari úr pjötlum
í Kötlum.

Ljósafell, Frumskógar 7

Séra Helgi Sveinsson bjó þar 1942-1964. Séra Helgi var hraðkvæður með afbrigðum. Dæmi þar um er þegar hann sat að morgni dags inni á kennarastofu barnaskólans í Hveragerði. Ungur kennari, Bjarni Eiríkur Sigurðsson kom inn og sá Gunnar Benediktsson þar við fatahengið.

Orð féllu á þennan veg.

Bjarni segir: Góðan daginn Gunnar Ben.
Gunnar svarar: Góðan daginn Bjarni.
Séra Helgi spyr: Er það satt að Ottesen eigi von á barni?

Sá sem barnsins átti von var Oddgeir Ottesen, Frumskógum 3, stofnandi gistiheimilisins Frumskóga og faðir og tengdafaðir núverandi eigenda.

Gistiheimilið Frumskógar hefur látið útbúa bækling með ítarlegri upplýsingum um Skáldagötuna og íbúa hennar. Hann er aðgengilegur öllum vegfarendum um Frumskóga í kassa á ljósastaur við gistihúsið.